Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar 4. júní 2015

Posted by Leikfélagið - in Félagsmál - No Comments

Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar 4. júní 2015 kl 20:00

Ólafur Þórðarson kosinn fundarstjóri og Ársæll Hjálmarsson fundarritari

1. mál: Formaður LH fer yfir skýrslu formanns.

Skýrsla formanns Leikfélags Hafnarfjarðar 4. júní 2015

Er ekki orðatiltæki að mótlætið herði mann? Það á allavega vel við um leikfélagið okkar, því þegar þetta leikár byrjaði, þá vorum við búin að standa í baráttu við Gaflaraleikhúsið um tíma í húsinu.
En við bættum svo sannarlega úr því á þessu ári. Okkar fyrsta verk á leikárinu var að skrifa undir nýjan samstarfssamning við Gaflaraleikhúsið eftir nokkrar samningaviðræður þar sem flestar af okkar kröfum, helst sem snéri að því að minnka árekstra á milli félaganna, voru samþykktar.
Við tókum þátt í stuttverkahátíð NEATA sem haldin var í leikhúsinu LK í byrjun október. Þar sýndum við tvö verk: Fuglaskoðararnir og Möguleikarnir 2014, sem var seinasti séns á að sýna það verk, annars hefði það þurft að breyta um nafn.
Ákveðið var að ráða Gunnar Björn Guðmundsson sem leikstjóra að haustverki félagsins og fljótlega var ákveðið að fara heldur óhefðbundna leið við verkefnaval. Við semsagt settum upp spunaverkið Göngum aftur í Hafnarfirði, sem var draugaganga í þekktum húsum í bænum. Við fundum fullt af draugum og sýndum alls sjö sýningar.
Að draugagöngunni lokinni þá fórum við beint í næsta verkefni: byrjendanámskeið í leiklist og að því loknu: Tvær vikur af hinu vikulega, þann 6. des og 13. des.
Stjórn leikfélagsins hafði um sumarið ráðið Ágústu Skúladóttur til að leikstýra vorverkefni félagsins. Ég og Ágústa vorum búin að hittast nokkrum sinnum og ræða hvaða verkefni væri gaman að ráðast í. Meðal annars skoðuðum við Pétur Gaut, aðallega þann hluta sem aldrei er sýndur í uppsetningum á því verki, en fljótlega þá lagði Ágústa til að sett yrði upp verkið Bubbi kóngur,sem hún hafði lengi haft brennandi áhuga á að setja upp.
Bubbi kóngur, sem varð Ubbi kóngur, var stórt verkefni, stærsta verkefni sem leikfélagið hefur lagt í síðan að Fúsi var frumsýndur. Við vissum að þetta yrði stórt verkefni, við ákváðum að þetta yrði stórt verkefni, og þetta varð stórt verkefni, stórasta verkefnið hjá leikfélaginu. Sem líka þýddi það að Ubbi kóngur myndi ekki koma út í plús fyrir félagið. En við vissum það áður en við settum það upp.
Við sýndum 9 sýningar af Ubba kóngi og komu rúmlega 500 manns á sýninguna.
Þegar að sýningum var að ljúka á Ubba, þá vorum við orðin óþreyjufull að fara í næsta verkefni og var ákveðið að setja upp eina viku af Hinu vikulega í lok leikárs.
Í jólamánuðinum, í seinni vikunni af Hinu vikulega, þá var ákveðið að setja ekki upp eitt verk sem ekki var talið henta. Það fjallaði um vírherðatré og eitthvað fleira.
Þess vegna var ákveðið að setja upp Hið vikulega sem bannað væri börnum og vissu höfundar það, þegar þeir settust niður til að skrifa. Síðastliðinn laugardag frumsýndum við átta stuttverk, og voru þau misgróf og fóru um víðan völl á tilfinningaskalanum. Hlátur, grátur og allt þar á milli.
Á leikárinu sýndum við 22 verk eftir 13 höfunda og leikstýrt af 15 leikstjórum, og leikið var í. 1470 mínútur, eða rúman sólarhring.
Á morgun fer stór hluti okkar í Bandalagsskólann að læra leikstjórn, spuna, leiklist og að skrifa. Við erum níu sem nú sækjum skólann, í fyrra vorum við átta sem sóttum skólann, þannig að við erum að bæta við okkur.
Ég er farinn að hlakka til næsta leikárs. Við byggjum á því sem við gerðum á þessu ári og gerum meira og stærra á því næsta. Leikum og lifum.
Fyrir hönd stjórnar Leikfélags Hafnarfjarðar, Gísli Björn Heimisson, formaður
2. mál: Ólafur stingur upp á að opnar umræður verður eftir hvern dagskrálið.
Lárus Vilhjálmsson spyr hversu margir mættu á Draugagönguna og sagði formaður LH að það hefðu verið um 125 manns. Engar tölur voru samt til um það. Skýrsla formanns samþykkt.
3. mál: Skýrsla gjaldkera Stefán H. Jóhannesson gjaldkeri les skýrslu gjaldkera. Stutt og laggott.
Lárus Vilhjálmsson spyr um bankahólf LH sem er staðsett í Íslandsbanka. Stefán nefndi að ekki hafði verið farið í hólfið síðan 1989. Í bankahólfinu var eitt umslag sem á stóð dagsetningin 1988. Stefán nefnir að leikfélagið hafi verið nokkuð stöndugt og þar hafi verið kvittanir upp á verðrbréf sem LH hafði selt. Lárus útskýrir hvernig til stóð að LH á þeim tíma hafi farið í að fjárfesta í verðbréfum. Skjal í þessu umslagi var umboð sem stjórn LH gaf Svanhvít Magnúsdóttir til að leysa út verðbréfin. Farið var svo í að kaupa ljós og tæki fyrir félagið.
Haldið verður áfram að borga fyrir hólfið og nefndi Stefán að í hólfið færi leikskrár/skrær sem LH hafi fengið til varðveislu.
4. mál: Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga leikfélagsins og Stefán fer yfir reikningana.
Gísli útskýrir skammtímaskuldir. Góa ehf. styrkti félagið um 50.000 í inneign. Leikfélagið tók út vörur frá Góu fyrir 17.000 kr til sölu á sýningum. Sem og að LH á enn eftir að gera upp við Gaflaraleikhúsið.
Halldór spyr um 800.000 kr fasteignina. Gísli og Lárus nefna að þær voru yfirfærðar sem upphafsstaða frá síðasta leikári. Í þessu eru kastara, ljósaborð sem er ónýtt og píanó (sem þarf að stilla) og eldhúsborð Bjarkar Guðmundsdóttur. Stefán var með bókara segir hann.
Ingveldur hafði svipaðar spurningar og þurfti ekki svör við þeim þar sem þær voru komnar. Halldór spyr um heildareign á bókum 467.618 kr. Enn á eftir að gera upp við Gaflaraleikhúsið.
Gísli útskýrir að það sem telst vera aðrar tekjur er að litlu reikningarnir í banka voru ekki á fyrri skýrslum. Það þurfti að taka þá fram í þessari skýrslu og voru þar að leiðindum settir sem aðrar tekjur.
Stefán segir að einn af reikningunum ber vexti og ætti LH að nota þann reikning meira og loka hinum aukareikningunum. Stefán útskýrir hvers vegna LH hafi verið með 4 reikninga hjá Íslandsbanka. Það má loka tveimur af reikningunum.
Reikningar LH samþykktir samhljóða.

5. mál: Kosning stjórnar

Ólafur les upp lög leikfélagsins er lítur að kosningu stjórnar og leggur til lagabreytingu sem taka þarf upp seinna. 2 sæti laus í aðalstjórn. Styrmir og Lárus detta úr aðalstjórn.
Arndís, Ársæll, Elva, Hermann, Ingveldur og Ólafur bjóða sig fram í aðalstjórn. Alls eru 17 sem kjósa Niðurstöður voru:
Arndís: 6
Ársæll: 2
Elva: 4
Hermann: 0
Ingveldur: 13
Ólafur: 9
Í aðalstjórn fara þá Ingveldur Þórðardóttir og Ólafur Þórðarson
Kosning þriggja varamanna í stjórn: Arndís: 14
Ársæll: 10
Elva: 5
Halldór: 13
Kristín: 6
3 miðar af 17 höfðu einungis 2 nöfn
Í varastjórn fara því Arndís, Ársæll og Halldór.
6. mál: Kosning tveggja félagslega endurskoðenda. Kristín Svanhlidur Helgadóttir og Margrét Sigríður Sævarsdóttir voru kosnar. Vara félagslegur endurskoðandi kosinn var Viðar Utley
7. mál: Kosning formanns. Í framboði er Gísli Björn Heimisson. Þar sem enginn annar bauð sig fram er hann sjálfkjörinn.
8. mál: Lagabreytingar. Engar lagabreytingar voru lagðar fram.
9. mál: Árgjald. Gísli nefnir að árgjald sé ekki hugsuð sem innkoma í félagið heldur til að halda utan um félagsmenn. 1000kr haldast áfram sem félagsgjöld fyrir næsta leikár.
10. mál: Stefán sýnir meðlimum fundsins gamlar leikskrár sem félagið fékk til varðveislu. Þetta eru leikskrár frá 1944 og 1945. Kinnahvolssystur og Pósturinn kemur.
Fundarhlé
11. mál: Önnur mál.
Hermann kemur með hugmynd um að höfundar Hið Vikulega komi saman og skrifi leikrit í fullri lengd. Ingveldur nefnir að þegar séu einhverjir af höfundunum sem hafa skrifað leikrit í fullri lengd. Ólafur segir að það séu þrír höfundar sem hafa þegar skrifað með öðurm.
Halldór vill þakka fráfarandi stjórnarmeðlimum fyrir störf sín.
Gísli þakkar fráfarandi stjórnarmeðlimum og varamönnum fyrir störf sín og nefnir að fyrsti fundur nýrrar stjórnar verði bráðlega. Gísli biður Styrmi að halda áfram að sjá um vefsíðu leikfélagsins, Styrmir samþykkir það. Eins nefnir Gísli að Hið Vikulega 8 verður í lok ágúst byrjun september. Gísli bíður nýja stjórnarmeðlimi velkomna og þakkar traustið sem honum hefur verið sýnt sem formann. Stjórn LH hafði tekið ákvörðun að setja upp stóra sýningu, Ubba Kóng, sem vitað yrði að væri kostnaðarsöm en á móti sem góðan drifkraft í leikfélagið.
Styrmir vill að höfundar í Höfundarsmiðjunni semji örverk eða smásögu sem hægt væri að birta á heimasíðu leikfélagsins. Félagar voru samþykkir.
Ólafur spyr hvort hægt væri að safna saman öllum verkum sem höfundar hafa samið fyrir Hið Vikulega og geymt á lokuðu svæði á heimasíðunni. Gísli og Styrmir nefna að sú hugmynd hafi þegar komið fram og sé í vinnslu.
Eins langar Styrmi og Gísla að gera gagnagrunn þar sem hægt er að flétta bæði upp leikurum, leikritum og leikskrám. Það getur verið strembin vinna, en áhugi sé til staðar.
Ólafur vill að Styrmir fari í að skoða hvort hægt sé að koma þessu á koppinn.
Kristín spyr hvort að félagið eigi að halda í bankahólfið. Fundarmenn vilja halda hólfinu til að geyma t.d. gamlar leikskrár. Kristín spyr hvort að hægt væri að innrétta skrifstofu á efri hæð Gaflaraleikhúsins sem hægt væri að læsa. Vegna tímaleysis í húsinu gagnvart LH hefur samstarfið ekki verið eins og við höfum viljað. Í raun vilja stjórnarmeðlimir finna annað húsnæði. Þar sem LH hefur einungis 2 verk á leikári er enginn annar rammi fyrir annað efni. Það að mega ekki hreyfa við ljósum eða sviðsmynd gerir það erfitt fyrir félagið að velja leikrit til sýninga þar sem taka þarf tillit til þess.
Steinunn vill þakka fyrir veturinn og segir að það hafi verið lærdómsríkt leikár. Hún hefur lært mikið. Bendir á að þeir sem sitja fyrir utan geti komið og fylgst með æfingum á verkum.
Ársæll nefnir að LH gæti verið með styrktartónleika til að fjárfesta í nýju ljósaborði, hljóðkerfi og ljósum. Gunnar Björn segir að ljós og hljóðkerfi sé ekki dýrt.
Húsnæðismál: Steinunn spyr hvaða húsnæði við viljum. Ólafur nefnir að við þurfum að halda okkur við að einn í einu tali. Stefán leggur til að við athugum með húsnæðismál. Veit ekkert hvar við munum komast inn, en þörfin er mikil. Við þurfum ekki stórt húsnæði til sýninga. Ef stærri sýningar eru teknar fyrir þá er hægt að æfa í smærra húsnæði og leigja þá stærra leikhús eða svið til sýninga, t.d. Gaflaraleikhúsið eða Bæjarbíó.
Gunnar Björn nefnir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Leikfélagið lendir í vondu samstarfi. Þegar félagið fór í Lækjarskóla hafi það fundið fyrir frelsi frá samstarfi.
Styrmir nefnir að þegar leikfélagið flutti frá Lækjarskóla var sett upp Fúsa Froskagleypi og sýningar voru þéttsetnar áhorfendum. Eftir það fór krafturinn niður og hefur ekki náð sér almennilega á skrið fyrr en Ubbi Kóngur var settur upp.
Gunnar Björn nefnir að Ubbi Kóngur hafi verið þarft verk fyrir félagið. Barnaleikrit og öflugar sýningar gera gott fyrir félagið, hinsvegar eru áhorfendapallarnir c.a. 200 manns að skemma stemminguna fyrir leiksýningar að þessu tagi.
Elva nefnir að fínt sé að vera í Gaflaraleikhúsinu ef setja á upp stórar atvinnulegar sýningar. En við erum hinsvegar áhugaleikfélag sem viljum gera allskonar sýningar. Ekki sé gott að halda sig við 2 sýningar á leikári.
Kristín spyr hvort ekki væri hægt að vera í Lækjarskóla en semja um að vera með eina stóra sýningu í stærra leikhúsi. Eins segir hún að ekki sé hægt að hafa marga áhorfendur þar þar sem brunavarnir gera ráð fyrir fjölda leikara plús áhorfenda, max 50 manns í rýminu.
Ólafur nefnir að við eigum ekki að festa ekki alveg við Lækjarskóla heldur að finna annað húsnæði sem hægt væri að hafa 60-100 manns í áhorfendasal.
Steinunn nefnir að byrja þarf að nefna við menningarnefnd bæjarins hvernig staða leikfélagsins er, hvernig samstarfið við GL er.
Gísli nefnir að hann hafi nokkrum sinnum við Marín og nefndi eitt sinn samstarfið og samninginn við Gaflaraleikhúsins. Hún nefndi að mikil ánægja hafi verið í bænum að leikhúsábyrgðin hafi farið frá bænum yfir í Gaflaraleikhúsið. Frá bæjarins hendi væri ekki í boði að fara í annað og þá eigin húsnæði. Við höfum 6 mánaða uppsagnafrest.
Steinunn nefnir að það séu fleiri olnbogabörn, þ.e. kórar og fleiri menningarleg félög sem bærinn hafi gert samning við sem eru húsnæðislaus. Bærinn þarf að gera betri menningarsamninga við LH.
Óiafur nefnir að húsnæði Gaflaraleikhúsins sé til sölu á 90 milljónir.
Kristín spyr hvort að það væri verkefni fyrir stjórn eða hvort að það þyrfti að stofna húsnæðisnefnd innan félagsins við að finna húsnæði fyrir félagið.
Gísli segir að hægt væri að koma þessu fram á aðalfundi og ef aðalfundur vill að stjórn beiti sér fyrir einhverju t.d. húsnæðismálum er hægt að leggja það fram.
Kristín leggur fram þann möguleika að húsnæðisnefnd verði tekin upp. Ekki náðist niðurstaða á þessari hugmynd.
Stefán nefnir að það sé frábært að hafa áhugamál sem Leikfélagið er. Ef áhugi sé til staðar að gera eitthvað þá eigum við að gera það. Við getum mögulega, félagarnir, safnað saman í eitthvað sem vantar í félagið, t.d. ljósaborð og þess háttar. Nefnir að ef vilji er fyrir hendi og að ef við viljum fara í annað húsnæði með engan búnað þá er ekki erfitt að bretta upp ermar og safna eða slá saman í púkk fyrir þeim búnaði sem þarf.
Stefán spyr hvort að það sé leikfélagið beri kostnaðinn á biluðum búnaði. Samkvæmt þjónustusamningi/samstarfssamningi við GL eiga þeir að sjá um að búnaðurinn sé í góðu standi. Við borgum fyrir tæknivinnu en eigum eitthvað af tækjum sjálf sem við höfum varla aðgang að.
Skrifleg tillaga lögð til stjórnar um að finna nýtt húsnæði, lagt er til stjórnar að húsnæðisnefnd verði sett á laggirnar við að finna húsnæði.
„4. júní 2015
Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar leggur það í hendur stjórnar félagsins að leita allra leiða til að finna annað húsnæði undir starfsemi félgasins sem fyrst. Lagt er í hendur stjórnar að skipa húsnæðisnefnd sem vinnur að því.“
Tillaga samþykkt samhljóða.
Umræða um að miðað við þá leigu sem við borgum þá er vert að skoða annað húsnæði.

Fundi stlitið kl 22:17

Comments are closed.

Pin It on Pinterest

Share This