Screen Shot 2013-09-09 at 15.57.54Í lok nítjándu aldar urðu Hafnfirðingar flestum fyrri til að koma sér upp leikhúsi og munaði sérstaklega um það þegar Gúttó var opnað 1886.   Ekki er vitað með vissu hvenær leiksýningar hófust í Hafnarfirði, en þó er nokkuð ljóst að það var áður en Gúttó kom til sögunnar. Sýnt var í Linnetspakkhúsi svonefndu og var Skugga-Sveinn Matthíasar Jochumssonar leikinn. Frá þessu segir í endurminningum Knuds Ziemsens borgarstjóra í Reykjavík.

Með tilkomu Gúttó breyttist leikaðstaða auðvitað til mikilla muna, þó að framan af muni Hafnfirðingar ekki hafa hugsað svo langt að stofna sérstakt leikfélag. Þó er getið um leikfélag í blaðinu Kvási sem var gefið út í bænum á árunum 1908 – 09, en litlar heimildir eru að öðru leyti um starf þess. Það var alltaf nokkuð öflug leikstarfsemi í bænum en oftast tengdist hún fjáröflun hjá ýmsum félögum.

Formleg stofnun Leikfélags Hafnarfjarðar er talin vera 19. apríl 1936 og var félagið stofnað að frumkvæði Daníels Bergmann og Gunnars Davíðssonar. Stofnendur voru ellefu talsins og höfðu allir með einum eða öðrum hætti komið við sögu leiklistar í Hafnarfirði áður.

Starfsemi félagsins var frekar skrykkjótt fyrstu árin.Hún efldist nokkuð á á stríðsárunum og til mikilla muna árið 1945  þegar Bæjarbíó var opnað en húsið var þá talið besta leikhús landsins og hélt þeim sessi þar til Þjóðleikhúsið opnaði. Það hefur gleymst á síðustu árum að Bæjarbíó var bæði hannað og smíðað sem kvikmyndahús og leikhús og Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi Kinnarhvolssystur mánuði eftir að húsið opnaði. Það muna líka margir eftir því 1952 þegar félagið setti aftur upp  Ráðskonu Bakkabræðra sem sló í gegn í Gúttó á stríðsárunum, aðsóknin var svo mikil að röðin í miðasölunni í Bæjarbíó náði út á hornið  á Strandgötu og Reykjavíkurvegi. Mikill metnaður var í félaginu á þessum árum og það setti upp fjölda verka. Margir af þekktustu leikurum þjóðarinnar hófu sinn feril með félaginu á þessum tíma má þar nefna Róbert Arnfinnsson og Herdísi Þorvaldsdóttur.

Bæjarbíó var heimili leikfélagins til 1965 en þá lagðist starfsemin af að mestu þar til 1983. Á þessum tíma áttu áhugaleikfélögin í landinu í tilvistarkreppu. Sumir kenndu um sjónvarpinu og aðrir breyttum þjóðfélagsháttum.

Árið 1983 ákváðu nokkur ungmenni sem höfðu verið virk í leiklistarlífi Flensborgarskóla, sem hafði verið mjög blómlegt frá árinu 1978, en voru nú útskrifuð úr skólanum að blása lífi í Leikfélag Hafnarfjarðar. Þau fengu til liðs við sig Árna Ibsen leikara og leikstjóra og settu upp leikritið Bubba Kóng í Bæjarbíó vorið 1983. Fyrstu árin var félagið í nokkru húsnæðishraki og sýndi verk sín meðal annars í Hafnarfjarðarbíó og veitingastaðnum Gaflinum.

Árið 1984 varð síðan aftur þáttaskil hjá félaginu þegar það fékk Bæjarbíó til afnota á ný. Næstu 15 ár voru nokkuð gróskumikill hjá félaginu og voru að jafnaði frumsýnd tvö verk á hverju leikári. Mikill metnaður var í verkefnavali og félagið setti upp jöfnum höndum ný frumsamin íslensk verk ásamt því að klassísk verk og heimsbókmenntirnar  fengu einnig sinn sess eins og td. verk William Shakespeare. Farið var í leikferðir innanlands og utan og voru eftirminnilegar ferðir til Mónakó 1986 og til Indlands árið 1989. Árið 1990 stofnaði félagið unglingadeild fyrir ungmenni á aldrinum 13-16 ára og var hún mikil lyftistöng og vítamínsprauta fyrir félagið og gerði því kleyft að starfa af krafti á sumrin og alltaf  var sett upp eitt verkefni á leikárinu með unglingunum. Þeir urðu síðar margir öflugir í starfi félagsins.

Árið 1999 urðu aftur þáttaskil hjá félaginu þegar það missti húsnæði  sitt í Bæjarbíó í hendurnar á Kvikmyndasafni  Ísland og fór á hrakhóla aftur þrátt fyrir loforð bæjaryfirvalda um nýtt húsnæði. Næstu árin var félagið síðan í sambúð með Hafnarfjarðarleikhúsinu – Hermóði og Háðvör í húsi Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Þrátt fyrir bágar aðstæður og samskiptaerfiðleika við sambýlisfélagann  tókst félaginu að setja upp nokkur verk sem vöktu athygli fyrir frumsköpun og nýjungar í leikhúsinu. Þar má nefna Sölku miðil og Þið eruð hérna sem voru athyglisverðar spunasýningar. Einnig setti félagið upp þekkt verk leikbókmenntanna á þessum árum eins og Koss Kóngulóarkonunnar og Hvenær kemurðu aftur rauðhærði riddari.  Starfsemi unglingadeildar félagsins lagðist af á þessum tíma vegna aðstöðuleysis.

Árið 2004 flutti Leikfélag Hafnarfjarðar enn einu sinni búferlum þegar gamla bæjarútgerðin var rifin og þá lá leiðin upp í gamla Lækjarskóla þar sem rifin var veggur á milli skólastofa og útbúinn lítill salur fyrir 30-40 áhorfendur. Það kom mikill kraftur í félagið á þessum tíma og það byrjaði starfsemina í nýja húsnæðinu með því að setja á svið 4 sýningar í fullri lengd á einu leikári. Ekki var ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur því allt voru þetta fræg verk úr leikbókmenntunum eins og Hamskiptin, Beisk tár Petru von Kant, Hvað er að sjá til þín maður og Birdy. Næstu ár var ágætis kraftur í félaginu og það setti upp nokkur verk eins og td. barnaverkið Hodja, tilraunaverkið Hin endanlega hamingja, Dýragarðssögu og Barnið eftir Edward Albee. 2006 var sett upp Ráðskona Bakkabræðra í tilefni af 70 ára afmæli  leikfélagsins. Stærð leikhússins og aðstöðuleysi stóð þó félaginu fyrir þrifum og þegar því bauðst að flytjast í Gaflaraleikhúsið árið 2011 var stokkið á það. Fyrsta verkefni  félagsins  í nýja  húsnæðinu var Fúsi Froskagleypir sem félagið hafði sýnt 25 árum áður. Það fékk það glimrandi viðtökur áhorfenda og var sýnt 25 sinnum fyrir fullu húsi. Það var einnig gefið út á mynddiski ásamt því að hægt er að nálgast það á VOD leigum.

Síðan þá hefur leikfélagið sýnt 4 verk og verið afar virkt í námskeiðahaldi í leiklist og leikritasmíðum  og núna um  vorið 2014 stendur félagið fyrir stuttverkahátíð sem heitir Hið Vikulega þar sem verða sýnd á milli 30 og 40  verk á einum mánuði. Það er enginn bilbugur á félaginu sem fagnar 78 ára afmælinu í apríl.

Comments are closed.

Pin It on Pinterest

Share This