Ubbi í Mónakó – 3. hluti

Posted by Leikfélagið - in Fors, Uncategorized - No Comments

Ubbaliðið er að skríða saman og niður úr skýjunum eftir síðustu sólarhringa. Þeir hafa verið ótrúlega viðburðaríkir og stífir, en nú erum við komin til Nice og búin að sofa úr okkur ævintýraþreytuna.

Þriðjudagurinn 29. ágúst hófst snemma á hótelinu okkar í Beausoleil. Að mörgu var að hyggja við að undirbúa sýninguna okkar og íslenska boðið sem til stóð að halda um kvöldið fyrir aðra þátttakendur og heimamenn. Við vorum sótt rétt fyrir tvö og farið með okkur og leikmynd og muni í Princess Grace leikhúsið, þar sem við höfðum tíma til klukkan fimm til að setja upp, fara yfir tæknimál og prófa sviðið.

Stundvíslega klukkan sex hófst svo fyrri sýningin á Ubba kóngi. Tveir aðrir leikhópar sýndu í leikhúsinu þetta kvöld, frá Víetnam og Slóvakíu. Sýningar kvöldsins voru mjög ólíkar. Víetnamski hópurinn gaf okkur innsýn í menningu sína með hefðbundinni uppsetningu á trúarlegu verki. Slóvakíska sýningin var hins vegar allt annað en hefðbundin, afskaplega fersk og skemmtileg pólitísk ádeila, The Trial of Genesis, flutt af ungum og sprækum leikhóp frá Bratislava sem kallar sig Súbor Uložiť ako.

Af þeim fjórtán verkum sem hópurinn okkar sá á hátíðinni þótti okkur það slóvakíska standa uppúr. Bandaríska verkið, Tshepang: The Third Testament eftir Lara Foot, hafði líka mikil áhrif á okkar fólk. Það var einstaklega vel flutt af leikhópnum Actors‘ Warehouse frá Gainesville. Verkið var dökkt og sterkt, uppsetningin einföld og upplifunin einkar áhrifamikil. Þriðja verkið sem vert er að nefna sérstaklega heitir Me and my Friend eftir Gillian Plowman og var flutt af Rasper Players frá Gorey á Írlandi. Mjög gott verk og sterkur leikur skilaði þar afskaplega eftirminnilegri sýningu.

Það var spenna í lofti fyrir fyrra sýningarkvöldið. Aðstæður okkar höfðu boðið uppá ýmsar breytingar á Ubba kóngi. Leikurum hafði fækkað um þrjá frá upphaflegri sýningu, þar af tvo frá því að það var síðast sýnt í Austurríki. Aðrir leikarar bættu á sig verkefnum þeirra. Að auki datt fjórði leikarinn út á síðustu metrunum, ljósamaðurinn stökk inn í hans stað og þurfti að læra sitt hlutverk á núll einni. Við þurftum líka að breyta sviðsmynd og leikmunum eftir aðstæðum. Við þetta bættist svo að verkið þurfti að stytta samkvæmt kröfum Mondial hátíðarinnar. Þar sem Leikfélag Hafnarfjarðar er húsnæðislaust gafst ekki mikið rými til æfinga fyrir ferðina, en Leikfélag Kópavogs sá aumur á okkur og skaut yfir okkur skjólshúsi af miklum rausnarskap svo við gátum tekið nokkrar æfingar.

Það var ekki að sjá á leikhópnum okkar að hann væri lítið æfður. Fyrri sýningin gekk glimrandi og subbulegi Ubbi kóngur, maddama Ubba og allt þeirra gróteska gengi sló í gegn. Einni manneskju ofbauð svo að hún gekk út og einhverjir færðu sig aftar í salinn þegar Ubbi karlinn skvetti úr gestaklósettinu yfir áhorfendur. Aðrir gengu himinlifandi út. Við líka.

Morguninn eftir þakti frábær umfjöllun um Ubba kóng forsíðu fréttablaðshátíðarinnar undir fyrirsögninni Oh! Sweet mental illness! Okkur hlýnaði um hjartaræturnar við það. Á umræðum morgunsins um frumsýningar kvöldsins áður var borð stjórnendanna skreytt með klósettbursta og -pappír okkur til heiðurs. Skemmtilegar umræður sköpuðust um sýninguna okkar, sem og hinar sýningarnar.

Að umræðum loknum bauð innanríkisráðherra Mónakó, Patrice Cellario, fulltrúa hópsins í hádegisverð ásamt fulltrúum Slóvakíu og Víetnam og ýmsu fyrirfólki. Á meðan gátu hinir notið frelsis í nokkra tíma og reddað því sem redda þurfti fyrir kvöldið. Klukkan fimm var svo mætt í leikhúsið á ný. Ubbi kóngur var síðasta sýning hátíðarinnar, sérstaklega valin til þess fréttum við eftirá. Skemmst er frá því að segja að leikhópurinn var í rífandi formi og átti salinn frá fyrstu mínútu. Fagnaðarlætin og fjörið var ótrúlegt og þegar hópurinn mætti í lokahófið sem haldið var eftir sýninguna var þeim fagnað eins og rokkstjörnum.

Lokahófið var haldið í drellifínum snekkjuklúbbi Monte Carlo. Þar skemmtum við okkur inn í nóttina og nutum þess að hafa staðið okkur eins og hetjur og staðið undir væntingum forsvarsmanna hátíðarinnar, sem veðjuðu á okkur og vildu allt til vinna til þess að hafa sýninguna okkar með.

Stolt en ósköp lúin pökkuðum við svo saman morguninn eftir og kvöddum Mónakó með söknuð í hjarta á hádegi.

 

 

 

Fyrir hönd hópsins;

Ingveldur Lára Þórðardóttir

Hér má sjá myndband frá hátíðinni.

 

Comments are closed.

Pin It on Pinterest

Share This