Hvað er að frétta?

Posted by Leikfélagið - in Félagsmál, Fors - No Comments

Í framhaldi af velgengni Leikfélags Hafnarfjarðar í Mónakó í haust hefur félaginu verið boðið að koma með sýninguna á Ubba kóngi á leiklistarhátíðina Jiraskuv Hronov í Tékklandi.  Hátíðin er ein af þeim elstu á sviði áhugaleikhúss í Evrópu og spennandi tilhugsun að fara enn og aftur á erlenda grund sem fulltrúi íslenska áhugaleikhússins og íslenskrar menningar.

Höfundasmiðja LH er eins og stendur virkasti hluti leikfélagsins.  Höfundasmiðjan á tilbúið verk sem bíður aðstöðu til uppsetningar og önnur á teikniborði.  Hópurinn stefnir á að koma á vikulegum skáldakvöldum eftir áramót, þó alltaf með þeim fyrirvara að einhver geti boðið heim, en hópurinn hittist fyrst og fremst í heimahúsum eftir að leikfélagið varð húsnæðislaust.

Lítið hefur miðað í húsnæðismálum félagsins. Í hvert sinn sem við höldum að hagur okkar sé að vænka rekum við okkur á hindranir. Hvorki hefur tekist að tryggja húsnæði til langframa né til tímabundinna verkefna, s.s. stuttverkakvölda.

Leikfélag Hafnarfjarðar býr semsagt ennþá í gámi á Völlunum og starfsemin er lítil á meðan. Við gefumst samt ekkert upp og trúum því að bærinn og bæjarbúar vilji okkur vel og að einhvers staðar þarna úti bíði litla leikhúsið okkar. Þá verður gaman að vera til enda bíða ógrynni hugmynda eftir að verða að veruleika.

Comments are closed.

Pin It on Pinterest

Share This