Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar leikárið 2015-2016

Posted by Leikfélagið - in Félagsmál, Fors, Uncategorized - No Comments

Haldinn í Gaflaraleikhúsinu miðvikudaginn 29.6.2016 kl. 20.00.

Fundarmenn:

Gísli Björn Heimisson, formaður, Ingveldur Þórðardóttir, Stefán Jóhannesson, Ólafur Þórðarson, Halldór Magnússon, Ársæll Hjálmarsson, Lárus Vilhjálmsson, Styrmir Kristjánsson, Kristín Svanhildur Helgadóttir, Steinunn Þorsteinsdóttir, Jóhanna Fríða Dalkvist, Sigrún Tryggvadóttir, Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir, Huld Óskarsdóttir, Gunnar Björn Guðmundsson, Hermann Ztuð, Gígja Hjaltadóttir, Oddfreyja Oddfreysdóttir og Aðalsteinn Jóhannsson, auk Arndísar Jónu Vigfúsdóttur á Skype.

Dagskrá:

1. Skýrsla formanns.
2. Reikningar lagðir fram.
3. Kosning stjórnar

Gísli stakk upp á því að Steinunn Þorsteinsdóttir yrði fundarstjóri og Ólafur Þórðarson yrði fundarritari. Var það samþykkt.

1. Skýrsla formanns

Skýrsla formanns Leikfélags Hafnarfjarðar 29. júní 2016

Þetta leikár er búið að vera svolítið sérstakt er það ekki?

Við byrjuðum leikárið á aðalfundi og á honum var samþykkt eftirfarandi tillaga:
„Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar leggur það í hendur stjórnar félagsins að leita allra leiða til að finna annað húsnæði undir starfsemi félagsins sem fyrst. Lagt er í hendur stjórnar að skipa húsnæðisnefnd sem vinnur að því.“

Tillaga samþykkt samhljóða.

Það var því fyrsta verkefni nýrrar stjórnar að skipa húsnæðisnefnd. Hún tók til starfa og voru ýmsir möguleikar skoðaðir. Vænlegasti kosturinn var að óska eftir ákveðnu húsnæði frá bænum og fyrir valinu varð Lækjarskóli sem var húsnæði félagsins til margra ára.

Erindi var sent til bæjarins / menningarmálanefndar og var formaður boðaður á fund hjá menningarmálanefnd í kjölfarið. Á þeim fundi sátu fulltrúar í menningarmálanefnd, forstöðumaður Hafnarborgar og framkvæmdarstjóri Gaflaraleikhússins. Ástæða setu framkvæmdarstjóra Gaflaraleikhússins var skýrð þannig að leikfélagið væri nú þegar í samstarfi við Gaflaraleikhúsið og útskýrði ég (Gísli Björn) að óskir um nýtt húsnæði snérist í raun ekki um samstarf félaganna, heldur væri okkur of þröngur stakkur búinn í Gaflaraleikhúsinu og þörf leikfélagsins væri meiri en Gaflaraleikhúsið gæti uppfyllt eða væri tilbúið til að uppfylla. Þau voru svosem ekki svartsýn, en ekki heldur vongóð, um að hægt væri að finna lausn á húsnæðisvanda leikfélagsins, en það næsta sem gerðist í því var að erindi okkar var vísað til bæjarráðs þar sem því var á endanum synjað og ástæða synjunar sem gefin var, var að við værum í samstarfi við Gaflaraleikhúsið.

Það næsta sem gerðist í samstarfi félagsins og Gaflaraleikhússins var sú að þegar við ætluðum að hefja æfingar á vorverkefni félagsins, Ekkert að Óttast, þá var okkur tilkynnt að við myndum hafa 4 vikur til æfinga. Við færðum því frumsýningu fram um viku þ.a. tímaáætlun okkar var þannig að við myndum hefja æfingar þann 13. febrúar og myndum frumsýna 19. mars (5 vikur).
Innan sólarhrings var okkur tilkynnt að, einungis í febrúar, þá myndum við missa 7 æfingardaga, og einnig var óskað eftir því að við myndum sleppa 2 æfingadögum í viðbót í febrúar. Okkur fannst illa að okkur vegið og sendum við harðort bréf til bæjarins þar sem við tíunduðum það sem við töldum vera brot á samningi. Þar sem enginn menningarfulltrúi er starfandi þá var bréfið sent á bæjarfulltrúa, menningarráð og fleiri. Eftir á að hyggja þá hefðum við einungis átt að senda kvörtunina á forstöðumann Hafnarborgar og menningarráð, en við vorum ráðþrota og vildum fá skjót viðbrögð.

Ekki stóð á skjótum viðbrögðum. Frá Gaflaraleikhúsinu og forstöðumanni Hafnarborgar. Ágústa, forstöðumaður Hafnarborgar, hringdi í undirritaðan og bað okkur um að ræða við samstarfsnefnd Gaflaraleikhússins, sem við og gerðum. Á þeim fundi sátu undirritaður, ásamt Stefáni H. Jóhannessyni frá Leikfélagi Hafnarfjarðar, en frá Gaflaraleikhúsinu sátu fundinn Gunnar Helgason og Ragnhildur Jónsdóttir. Skemmst er frá því að segja að þessi fundur gekk ekki vel, og það helsta sem Gunnar og Ragnhildur höfðu að segja var að þau hefðu engan áhuga á áframhaldandi samstarfi og að við værum að eyðileggja leiklist í Hafnarfirði. Að svo búnu lauk þessum fundi og höfðum við lítil samskipti við Gaflaraleikhúsið, nema að því leyti að við fengum rukkun frá þeim upp á 424 þús þar sem m.a. var rukkað um 232 þús. fyrir vinnu tæknimanna (þeir voru nota bene með fleiri unna tíma en æfingatímabilið okkar var). Á sama tíma hringdi forstöðumaður Hafnarborgar í undirritaðan og tjáði honum að verið væri að undirbúa endurnýjun samnings við Gaflaraleikhúsið og var ég spurður hvort áhugi væri fyrir hendi að halda áfram samstarfi við Gaflaraleikhúsið, hún tjáði mér að Gaflaraleikhúsið væri tilbúið til áframhaldandi samstarfs, sem ég tjáði henni að það værum við líklega ekki. Stjórn félagsins ákvað að kalla til félagsfundar til að taka ákvörðun um áframhaldandi samstarf og samþykkti félagsfundur einróma að slíta samstarfi við Gaflaraleikhúsið. Sama dag og samstarfsslit vour tilkynnt til forstöðumanns Hafnarborgar og framkvæmdarstjóra Gaflaraleikhússins þá fór undirritaður ásamt ritara félagsins, Ólafi Þórðarsyni, á fund með Bæjarstjóra til að skýra afstöðu okkar gagnvart samstarfsslitum. Fundurinn gekk nokkuð vel og bæjarstjórinn sagði að leitað yrði leiða til að koma leikfélaginu í húsaskjól því hann vildi ekki að svona skapandi félag myndi hverfa úr bæjarflórunni.

Er ekki best að víkja að einhverju skemmtilegu? Á leikárinu settum við fjórum sinnum upp Hið vikulega. Tvisvar í ágúst, einu sinni á Hrekkjavökunni og einu sinni í maí (Hið Ubbalega). Reynt var að setja upp Hið vikulega í janúar en ekki tókst að manna það þá. Einnig var stórhugur í okkur og ætluðum við að setja upp nýtt verk eftir Ólaf Þórðarson á haustdögum. Á endanum brunnum við út á tíma með að manna það og var hætt við það (og settum í staðinn upp Hið Hrekkjavikulega).

Á nýju ári þá var Höfundasmiðjun virkjuð í að semja stærri verk, aðalsprautan í því var, og er, Gunnar Björn. Verkin eru skrifuð þannig að hver höfundur tók við af næsta höfundi á undan og þannig koll af kolli. Fyrsta verkið lofaði góðu. Ákveðið var að endurskrifa/endurbæta næsta verk og setja það upp. Það verk heitir Ekkert að Óttast og þótt æfingatíminn hafi verið stuttur þá tókst þessi tilraun okkar fullkomlega. Það endaði á því að vera valið athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins af valnefnd Þjóðleikhússins og við sýndum það í Kassanum þann 4. júní síðast liðinn.

Við enduðum síðan á því að fara til Austurríkis þann 13. júní þar sem við sýndum Ubba kóng við mikinn fögnuð innfæddra og annarra, okkur var m.a. boðið að sýna Ubba á leiklistarhátíð í Salzburg á næsta ári (boðið kom 4 mín. eftir að sýningu lauk).

Við frumsýndum 27 ný íslensk verk úr höfundasmiðju leikfélagsins og erum við þriðja árið í röð með langflest ný íslensk verk á leikárinu (af öllum leikfélögum á landinu), einungis 2013-2014 sýndum við fleiri ný íslensk verk.

Höfundasmiðjan er nú þegar búin að skrifa mjög frambærilegt leikrit, Ferðamaður deyr, og von er að við setjum það upp hið snarasta.

Eitt er það sem formaður vill skýra og biðjast afsökunar á. Þau leiðu mistök urðu að ekki var sótt um menningarstyrk til Hafnarfjarðarbæjar á leikárinu 2015-2016. Einungis var sótt um styrk vegna leiklistarferðar félagsins til Austurríkis, og þeirri umsókn var synjað. Þetta eru mistök sem urðu og þurfum við að breyta vinnuferlum innan stjórnar til að tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur, en mistökin voru mín og biðst ég afsökunar á því. Ef fundarmönnum finnst alvarleiki þessara mistaka vera svo mikill að ég ætti að biðjast lausnar mun ég gera það án frekari útskýringa.

Hafnarfjörður, 29. júní 2016

Gísli Björn Heimisson, formaður Leikfélags Hafnarfjarðar

 

Umræður um skýrslu:

Lárus gerði þá athugasemd að fulltrúar Gaflaraleikhúss hefðu ekki sagst vilja slíta samstarfi á fundi samstarfsnefndar.  Skiptar skoðanir um það hvað fór fram á fundinum en Stefán sagði frá sinni upplifun af þessum fundi.

Hanna þakkaði Gísla fyrir sín störf og tóku aðrir fundarmenn undir það.

2. Reikningar

Lagðir fram reikningar félagsins. Þeir hafa ekki verið endurskoðaðir af félagslegum endurskoðendum sökum þess að mappa með fylgiskjölum frá Hinu vikulega haustið 2015 var sett í geymslu og hefur ekki komið í ljós eftir það.

Stefán fór yfir reikningana og útskýrði.

Lagt fram til kynningar uppgjör á sýningum félagsins.

Lárus lagði til að reikningar félagsins yrðu ekki samþykktir fyrr en að félagslegir endurskoðendur hefðu farið yfir þá og þá yrði haldinn sérstakur fundur til þess að afgreiða þá.  Ingveldur lýsti yfir stuðningi við þessa tillögu. Tillagan var borin upp til samþykktar og hún samþykkt.

3. Kosning stjórnar

Hermann lagði til að fundarmenn myndu kynna sig og var það gert.

Kosning aðalmanna í stjórn LH

Kjósa skal um 3 fulltrúa í stjórn.

Í framboði eru:

Ársæll, Hermann, Arndís, Gísli, Stefán.

Niðurstaða kjörs:

Ársæll (8), Hermann (2), Arndís (14), Gísli (17), Stefán (19).

Gísli, Stefán og Arndís teljast því réttkjörin sem aðalmenn í stjórn LH.

Kosning varamanna í stjórn LH

Kjósa skal um 3 fulltrúa sem varamenn í stjórn LH.

Í framboði eru:

Elva (2), Gunnar (20), Halldór (15), Ársæll (13), Kristín (10).

Gunnar, Ársæll og og Halldór eru því réttkjörnir varamenn.

4. Kosning félagslegra endurskoðenda

Kristín og Jóhanna, Oddfreyja er varamaður.

5. Árgjald

Lagt til að gjald sé óbreytt frá fyrra ári, 1000 kr.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Lagt til að eldri félagar fái áminningu um greiðslu félagsgjalda.

Stjórnin kemur til með að finna sér bestu leið til að minna fólk á á næsta ári

6. Önnur mál

1. Húsnæðismál

Gísli sagði frá því að bæjarstjóri hefði bent á að safnaðarheimili á Völlunum gæti hugsanlega gengið sem húsnæði fyrir LH. Talað var við djáknann á Völlum en var hann ekki bjartsýnn á að starfsemi sem þessi ætti samleið með safnaðarstarfinu.  Ekki hefur heyrst aftur í honum.

Lárus spurði um hvort búið væri að kanna önnur hús, s.s. Íshúsið eða Lækjarskóla. Gísli sagði frá að þær hugmyndir hefðu verið ræddar en ekki verið í boði.

Hermann benti á Bónusvídeó í húsnæði Dvergs. Lárus sagði frá því að bærinn vilji rífa en eigi ekki húsnæðið.

Ingveldur spurði um Straum og Lárus sagði frá því að bærinn væri að fara selja.

Huld spurði um húsnæðisnefnd í félaginu. Inga sagði frá því að meðlimir hennar væru Inga, Óli, Gísli og Steinunn.  Fundurinn spurður um hvort reka þurfi þessa nefnd og var almennur vilji til þess að hún muni starfa áfram.

Spurt var um Bæjarbíó og Styrmir sagði frá því að hann vissi af því að það væri að fara í útboð.

Nokkur umræða var um hin ýmsu hús í bænum.

Stebbi benti á að það sem við þyrftum væri húsnæði sem myndi nýtast okkur undir reglulega starfsemi.

Ákveðið að stjórnin leggi áherslu á að húsnæðismálin séu forgangsmál og haldi félagsmönnum upplýstum um framvindu mála, sem og önnur mál sem hún tekur fyrir.

2. Nefndir og kynningarmál

Steini benti á að gott væri að hafa styrkjanefnd þannig að álag og eftirlit með umsóknum um styrki yrði á höndum fleiri manna.

Styrmir benti á að við værum ekki að nota heimasíðuna okkar.

Ingveldur stakk upp á því að ritnefnd yrði skipuð og myndi sú nefnd vera ábyrg fyrir því að uppfæra.

Einnig lagði hún til að fleiri nefndir yrðu búnar til og að stjórnin myndi virkja félagana til þátttöku í þeim nefndum, s.s. ritnefnd, styrkjanefnd, húsnæðisnefnd. Nokkur umræða og var stjórnininni bent á að taka þessi mál föstum tökum.

Huld benti á nauðsyn þess að hver leiksýning hefði framkvæmdastjóra sem héldi utan um hana.  Mikilvægt væri að einhver einn sem að sýningu kæmi sæi um samfélagsmiðlana í tengslum við þá sýningu.

Styrmir ítrekaði þá tillögu sína frá síðasta aðalfundi að meðlimir höfundasmiðju settu reglulega inn efni á heimasíðuna til þess að trekkja inn lesendur.

Gunnar Björn stakk upp á því að höfundasmiðjan ynni að verkefnum fyrir opnum tjöldum á samfélagsmiðlum eða heimasíðu.

Fleira var ekki rætt.

Fundi slitið kl. 21.50.

Comments are closed.

Pin It on Pinterest

Share This