Undanfarnar vikur hafa staðið yfir æfingar á Ubba kóngi, skrípaleik í mörgum atriðum, sem Leikfélag Hafnarfjarðar mun sýna á leiklistarhátíðinni Jiraskuv Hronov í Tékklandi þann 8. ágúst.
LH setti upp leikritið Ubba kóng eftir Alfred Jarry í leikstjórn Ágústu Skúladóttur vorið 2015 við góðan orðstír. Sýningin var valin til sýninga á alþjóðlegri leiklistarhátíð í Austurríki, Strawanz, ári síðar. Í fyrra var LH fulltrúi Íslands með Ubba kóng á virtustu alþjóðlegu leiklistarhátíð heims á sviði áhugaleikhúss, Mondial du Theatre, í Mónakó. Sýningin sló þar í gegn og í framhaldi var óskað eftir því að LH yrðu sérstakir gestir á Jiraskuv Hronov hátíðinni í Tékklandi á þessu ári. Nú er því semsagt komið að þriðju utanferðinni með sýninguna.
Sýnt verður tvisvar sama daginn á hátíðinni. Jiraskuv Hronov er tékknesk áhugaleiklistarhátíð sem haldin hefur verið árlega frá því 1931. Hátíðin býður í hvert sinn uppá eina erlenda sýningu.
Í fyrra fékk LH inni hjá Leikfélagi Kópavogs til æfinga fyrir Mónakóferðina og nú í ár bauð leikfélagið Hugleikur í Reykjavík fram húsnæði sitt svo LH gæti æft sýninguna fyrir Tékklandsferðina. Það er ómetanlegt fyrir Leikfélag Hafnarfjarðar að eiga slíka hauka í horni í húsnæðisvanda sínum.
Æfingar hafa gengið vel og hlakkar hópurinn til að fara enn og aftur sem fulltrúar íslenskrar menningar á erlenda grund og kynna heimabæinn og land sitt fyrir Tékkum.