Nú leikárið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur tilbaka.
Nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.
Leikárið sem nú er að ljúka er búið að vera rússíbani, með miklum hæðum og miklum lægðum. Eitt af fyrstu verkum nýrrar stjórnar var að framfylgja ákvörðun seinasta aðalfundar um innheimtu félagsgjalda. Þetta var aðallega gert til að félagsskrá leikfélagsins yrði skilvirkari.
Við hófum leikárið með því að ákveða leikverk sem sett skyldi upp, Nakinn maður og annar í kjólfötum. Við settum niður tíma í húsinu og byrjuðum að æfa. Halldór Magnússon ætlaði að leikstýra og við vorum komin með leikhóp. Við vorum búin að hittast þrisvar til fjórum sinnum þegar allt í einu kom upp úr kafinu að ekki yrði hægt að setja upp verkið innan þess tímaramma sem við höfðum ákveðið, þar sem ákveðið hafði verið að leigja út Gaflaraleikhúsið til annarra á þeim tíma. Þegar útséð var með að við gætum sett upp stærra verk fyrir áramót var ákveðið að hafa byrjendanámskeið í leiklist og settum við niður tímaplan fyrir það en þá bar svo við að það var ekki heldur hægt út af því að búið var að leigja út húsið. Við hættum því við það einnig og sáum ekki fram á að neitt yrði gert á vegum leikfélagsins fyrir áramót. Ég sá að við svo yrði ekki búið og hóaði í félaga í leikfélaginu í spunakvöld í desember. Þetta urðu nokkur skipti með fámennum hópi sem spunnu af krafti í desember mánuði.
Síðan hófst nýtt ár. Í janúar var leikfélagið með tvö námskeið, byrjendanámskeið í umsjón Ágústu Skúladóttur og höfundanámskeið í umsjón Karls Ágústs Úlfssonar. Það hefðu gjarnan mátt vera fleiri á námskeiðinu hjá Ágústu en höfundanámskeiðið hjá Karli var mun betur sótt og bæði námskeiðin tókust mjög vel og voru, held ég, allir ánægðir með þau.
Eftir að námskeiðunum lauk þá var farið að skoða hvað hægt væri að gera það sem eftir liði leikárs. Okkur í stjórn leist mjög vel á tillögu Halldórs Magnússonar um að fara í verkefni sem nefndist „Hið vikulega“ sem snýst um að skrifa og setja upp stuttverk á einni viku. Það var þó ógerlegt þar sem ekki var pláss í leikhúsinu til að sýna um helgar vegna fyrirhugaðra sýninga Gaflaraleikhússins. Við sáum ekki fram á að geta farið í þetta verkefni en þá fengum við þær fréttir að Gaflaraleikhúsið hefði hætt við sína uppsetningu og var þá ákveðið að fara í verkefnið Hið Vikulega.
Undirbúningur fyrir Hið Vikulega hófst á því að sett var á fót Höfundasmiðja sem byrjaði að skrifa af fullum krafti. Á sama tíma vorum við með byrjendanámskeið í leiklist, sem var opið og ókeypis fyrir alla. Um tólf manns voru í höfundasmiðjunni og sautján manns á byrjendanámskeiðinu. Að loknu byrjendanámskeiðinu var síðan hafist handa við Hið vikulega. Höfundasmiðjan fékk viku til að skrifa og leikstjórar og leikarar fengu viku til að setja upp verkið sem þau fengu í hendur. Þetta gerði leikfélagið fjórum sinnum og voru þrjátíu og fjögur stuttverk frumsýnd á þessum fjórum vikum. Þetta tókst í alla staði vel og komu samtals um þrjú hundruð áhorfendur á sýningarnar.
Stjórnin hefur nú þegar óskað eftir því við Gaflaraleikhúsið að fá inni í húsinu fyrir byrjendanámskeið og Hið Vikulega á haustdögum, en það yrði þá viðauki við þá tíma sem kveðið er á um að leikfélagið eigi til umráða fyrir stærri uppsetningar.
Nú í maí skrifaði leikfélagið undir endurnýjun á samstarfssamningi við Gaflaleikhúsið. Breytingar voru gerðar á samstarfssamningnum, bæði að beiðni leikfélagsins og Gaflaraleikhússins, sem miðar að því að auðvelda samstarfið og minnka þá árekstra sem hafa orðið í samstarfinu fram að þessu. Við vonum að samstarfið verði farsælt og langvinnt, en samningurinn er til þriggja ára.
Leikfélag Hafnarfjarðar er farið af stað af endurnýjuðum krafti og til merkis um það þá eru átta manns á leið í Leiklistarskóla Bandalags Íslenskra Leikfélaga núna í júni, en það er líklegast mesti fjöldi sem sótt hefur skólann frá stofnun hans, þar á meðal tvö í leiklist eitt, sem voru á byrjendanámskeiðinu í mars og tvö úr höfundasmiðjunni á Leikritun tvö.
Í maí fór síðan undirritaður fyrir hönd Leikfélagsins á aðalfund Bandalags Íslenskra Leikfélaga í Vestmannaeyjum og var þar kosinn í varastjórn bandalagsins.
Á leikárinu var einnig opnuð ný og endurbætt heimasíða félagsins á leikhaf.is og á Styrmir veg og vanda að þessari velkomnu endurnýjun á síðunni okkar. Við munum kappkosta að setja þar inn efni tengt leikfélaginu, tengt leiksýningum og öðru því sem leikfélagið tekur sér fyrir hendur.
Að lokum má geta þess að Sindri Þór Hannesson sagði sig úr stjórn á vordögum vegna þess að hann sá sér ekki fært að starfa áfram í leikfélaginu. Við viljum þakka honum samstarfið á liðnum árum og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni.
Fyrir hönd stjórnar Leikfélags Hafnarfjarðar,