Þannig samþykkt á aðalfundi Leikfélags Hafnarfjarðar 31. maí 2014
1. grein
Félagið heitir Leikfélag Hafnarfjarðar, skammstafað L.H. Heimili þess og varnarþing er í Hafnarfirði.
2. grein
Markmið félagsins er að efla og iðka leiklist í Hafnarfirði.
3. grein
Markmiði sínu hyggst félagið m.a. ná með því að æfa og sýna leikrit, standa fyrir námskeiðum í leiklist, vera vettvangur fyrir hverskonar hópvinnu félagsmann um leiklist og vera aðili að samtökum um menningarlíf í Hafnarfirði og annarsstaðar.
4. grein
Félagar geta þeir orðið sem gangast undir þær skuldbindingar er greinir í lögum þessum og greiða árgjald sem ákveðið er hverju sinni á aðalfundi. Gjalddagi árgjalds er 1. september. Félagar teljast þeir sem greitt hafa félagsgjöld. Úrsögn úr félaginu miðast við lok hvers reikningsárs.
5. grein
Félagar sitja fyrir um öll störf í þágu félagsins, nema því aðeins að stjórn telji annað nauðsynlegt.
Félagsmönnum er óheimilt að nota í eigin þágu efni úr uppfærslum félagsins, nema stjórn heimili. Sama gildir um aðrar eignir félagsins.
6. grein
Stjórn félagsins skipa 5 manns, formaður, ritari, gjaldkeri, varaformaður og meðstjórnandi. Stjórn er kosin á aðalfundi til tveggja ára í senn.
Kosning fer fram á hverju ári þannig að tveir fulltrúar eru kosnir annað hvort ár en þrír hitt árið.
Einn meðlimur stjórnar er kosinn formaður félagsins af aðalfundi að loknu stjórnarkjöri, hann er kosinn til eins árs. Skiptingu annarra embætta ákveður stjórnin sín á milli.
Á aðalfundi skal einnig kjósa þrjá varamenn í stjórn, 2 félagslegir endurskoðendur og einn varaendurskoðanda, alla til eins árs.
Komi óánægja upp með starfsemi stjórnar eða stjórnarmeðlima, er hægt að boða til fundar. Skal um það fundarboð gilda sömu reglur og boðun aukafunda. Vantraust telst samþykkt ef 2/3 félagsmanna samþykkja það. Kosning nýrrar stjórnar eða stjórnarmeðlims skal þá fara fram þegar í stað.
7. grein
Aðalfundur félagsins fer með æðsta vald í félaginu. Hann skal haldinn í júnímánuði ár hvert. Aðalfundur skal boðaður öllum félagsmönnum með 14 daga fyrirvara og er lögmætur sé löglega til hans boðað.
Dagskrá aðalfundar:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla formanns
- Skýrsla gjaldkera
- Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga til afgreiðslu.
- Kosning stjórnar og embættismanna sbr. 6. grein
- Lagabreytingar sbr. 13. grein
- Árgjald
- Önnur mál
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á fundum, þar sem annað er ekki tekið fram. Félagsfund skal halda í septembermánuði ár hvert.
Dagskrá félagsfundar:
- Formaður skýrir frá fyrirhugaðri starfsemi á leikárinu.
- Önnur mál.
Félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og ennfremur ef 5 félagsmenn óska þess. Í fundarboði skal ávallt geta fundarefnis.
Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundum hafa þeir sem skuldlausir eru við félagið og hafa náð 16 ára aldri.
8. grein
Sjórnin fer með framkvæmdastjórn í félaginu milli aðalfunda.
Formaður félagsins boðar til stjórnarfunda og eru þeir lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna er mættur. Boða skal bæði stjórnarmeðlimi og varamenn á stjórnarfundi. Varamenn taka sæti stjórnarmanna á fundum ef þeir eru fjarverandi.
Stjórnin skal færa reikninga félagsins og leggja þá endurskoðaða fyrir aðalfund. Reikningsárið er leikárið 1. júní til 31. maí.
Stjórninni er skylt að vátryggja áhöld og muni félagsins og hafa eftirlit með þeim.
Val á verkefnum félagsins er í höndum stjórnar.
9. grein
9. 1. Leikfélagið setur sér ákveðinn fjárhagslegan ramma fyrir leiklistarstarfsemi sína sem meðlimum félagsins ber að hlíta og framfylgja.
9. 2. Stjórn Leikfélagsins sér um skipulagningu á stærri uppfærslum.
9. 3. Auk þess býður félagið upp á að einstakir hópar innan félagsins geti á vegum þess séð um
minni uppfærslur, óbundnar stjórninni.
9. 4. Stærri uppfærslum á vegum félagsins skulu sett þau mörk sem hér segir:
- Í upphafi framkvæmda við uppfærslu skal stjórn Leikfélagsins skipa framkvæmdastjóra uppfærslunnar. Skal hann bera ábyrgð á og hafa umsjón með öllum fjárreiðum uppfærslunnar.
- Áður en lagt er út í framkvæmdir við sýningu er framkvæmdastjóra skylt að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir sýninguna. Ekki er leyfilegt að veita fé til hennar né hefja framkvæmdir fyrr en stjórn hefur samþykkt áætlunina.
- Stjórn Leikfélagins ber að sjá um að greiða laun leikstjóra uppfærslunnar.
- Að auki ber stjórn Leikfélagsins að leggja inn á vegum uppfærslunnar upphæð samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun sbr. gr. 9.4.b.
Ef sjóðir Leikfélagsins leyfa ekki slík fjárútlát er stjórn heimilt að veita framkvæmdastjóra sýningar úttektarheimild að öllu eða hluta, uppað ofangreindri samþykktri kostnaðaráætlun. - Sjóð þennan skal framkvæmdarstjóri fá í hendur og skal hann greiða úr honum allan kostnað við uppfærsluna (að launum leikstjóra undanskildum). Hann skal gæta þess að kostnaður verði ekki meiri en sjóði þessum nemur.
- Gjaldkeri félagsins skal reglulega fylgjast með fjárreiðum við uppfærslu í umboði stjórnar.
- Tekjur af uppfærslu skal gjaldkeri Leikfélagsins innheimta og færa í sjóði félagsins.
- Ef fyrirsjáanlegt er að útgjöld uppfærslunnar fari fram úr áætlun ber framkvæmdarstjóra sýninga að leggja fyrir stjórn endurskoðaða fjárhagsáætlun til samþykktar. Stjórn er heimilt að samþykkja slíka aukafjárveitingu, þó með þeim fyrirvara sem grein 9.7 felur í sér. Framkvæmdarstjóra er með öllu óheimilt að fara fram úr samþykktri fjárhagsáætlun.
9. 5. Minni uppfærslur skulu bundnar eftirfarandi skilyrðum:
a. Stjórn Leikfélagsins skal skipa einn úr hópnum framkvæmdarstjóra uppfærslunnar. Skal hann bera ábyrgð á og hafa umsjón með öllum fjárreiðum uppfærslunnar.
- Ef sýnt er að uppfærslan veiti rétt til styrks á vegum Bandalags Íslenskra Leikfélaga, þá skal stjórn Leikfélagsins sjá um að greiða laun leikstjóra ef hann er ráðinn.
- Samanber grein 9.4.c.
- Samanber grein 9.4.d.
- Samanber grein 9.4.e.
- Samanber grein 9.4.f.
- Samanber grein 9.4.g.
- Samanber grein 9.4.h.
9. 6. Þegar sýningum á uppfærslu lýkur þá skal framkvæmdarstjóri skila afgangi fjárveitingar, ef einhver er. Hann skal einnig gera upp kostnað við uppfærslu og framvísa reikningum. Gjaldkeri skal gera upp þær tekjur sem af uppfærslu hafa orðið.
9. 7. Ef stjórn Leikfélagsins telur raunhæft að leggja út í dýrari uppfærslur en venja er eða önnur þau fjárútlát sem óvenju mikil eða áhættusöm geta talist, ber stjórn Leikfélagsins að leggja kostnaðaráætlun viðkomandi framkvæmdar undir löglega boðaðan félagsfund.
10. grein
Fé því sem félagið kemst yfir með starfsemi sinni eða eignast á annan hátt, skal varið til greiðslu skulda félagsins og kostnaðar við starfsemi þess.
Lögráða félagsmenn bera ábyrgð á skuldum félagsins umfram eignir. Þó skal ábyrgðin aldrei vera hærri en sem svarar tíföldu verði aðgöngumiða á hverjum tíma.
Verði ágóði skal hann mynda sjóð til eflingar starfsemi félagsins. Sjóðurinn skal ávaxtaður í viðurkenndri peningastofnun.
Félagsfundur getur samþykkt að ráðstafa sjóðum félagsins á annan hátt, þó er stjórninni heimilt í sérstökum tilfellum að ráðstafa allt að 1/5 hluta af peningaeign félagsins, á milli félagsfunda.
11. grein
Ef félagið tekur á leigu eða til rekstrar húsnæði til starfsemi sinnar, skal ákvörðun um það tekin á félagsfundi, enda séu 3/4 hlutar fundarmanna samþykkir.
12. grein
Hætti félagið starfsemi sinni skulu eignir þess afhentar bæjarstjórn Hafnarfjarðar til varðveislu uns félagið hefur starfsemi á ný.
13. grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og séu 3/4 hlutar fundarmanna með breytingunni. Lagabreytinga skal geta í fundarboði.
14. grein
Lög þessi öðlast gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau. Jafnframt eru öll eldri lög og lagabreytingar úr gildi fallin.
Pingback: Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar 2017 |
Pingback: Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar |
Pingback: Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar 7. sept. | Leikhus.is