Vel heppnuð frumsýning á Ekkert að óttast

Posted by Leikfélagið - in Fors, Sýningar - No Comments

Nú í kvöld var frumsýnt nýtt Íslenskt leikrit hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar sem ber nafnið Ekkert að óttast.

Óhætt er að segja að vel hafi tekist til þar sem uppselt var á sýninguna og skemmtu áhorfendur sér hið besta og var mikið um hlátrasköll og var staðið og klappað vel í lok sýningar. Þetta verk er afrakstur höfundasmiðju LH og kannski rétt að grípa niður í ávarp leikstjórans Ólafs Þórðarsonar í leikskrá verksins til að fá nánari innsýn í höfundarferlið.

Ekkert að óttast (Gunnar á Leiðarenda) er gamanleikur eftir 12 höfunda úr höfundasmiðju LH. Leikritunarferlið tók um tvær vikur þar sem hver höfundur byrjaði á að skila inn einni persónu í persónubanka sem undirritaður skar síðan niður í sjö. Hver höfundur dró Tarot spil og saman mynduðu þau vísi að framvindu og áherslur sem reynt var að hafa til viðmiðs við skriftirnar. Dregið var um röð höfunda og í hvaða tímaröð þeir myndu skrifa. Hver höfundur hafði síðan 24 tíma til að skrifa sinn kafla í stykkið og sendi hann áfram á þann næsta í röðinni og svo koll af kolli. Út úr þessari vinnu fengum við handrit sem virkaði merkilega vel en sérvaldir höfundar úr hópnum eyddu síðan helgi við að umskrifa og samræma textann. Það var gert til að persónueinkenni héldu sér og eins til að fækka baksögum og slíkt.

Verkið fjallar um peninga, græðgi og svik, já og humar. En það fjallar líka um ást af ýmsum toga og það sem við erum tilbúin að gera eða ekki gera í nafni ástarinnar. Það fjallar um mikilvægi þess að hafa ást í hjartanu eða þykjast hafa ást í hjartanu. Að vera heiðarlegur og einbeittur og að horfast í þriðja augað við sig. Annars endar allt með ósköpum.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á þessa frábæru sýningu og segja vinum og vandamönnum að gera slíkt hið sama.

Miðasala fer fram á ekkertadottast@gmail.com

This slideshow requires JavaScript.

 

Comments are closed.

Pin It on Pinterest

Share This