Nú er sveittur dagur á enda runninn og á morgun munu Ubbi kóngur, Ubba kerling og allt þeirra hyski stíga á stokk í Princess Grace leikhúsinu í Mónakó.
Hópurinn okkar sameinaðist seinnipartinn á sunnudag í höfuðstöðvum hátíðarinnar, Auditorium Rainier III. Þar var haldin formleg móttaka og við boðin velkomin í hóp hinna landanna sem eiga fulltrúa á hátíðinni. Þá fengum við einnig að vita að væntingar manna til uppsetningarinnar okkar væru miklar. Við höfum heyrt það víða á síðustu dögum og erum því staðráðin í að standa okkur og slá í gegn.
Dagskráin hjá okkur er þétt. Á kvöldin eru leiksýningar frá kl. 18 til 22 og svo safnast þátttakendur saman í höfuðstöðvunum áður en hver heldur til síns heima. Það var ekkert gefið eftir í því á sunnudagskvöld þó nýkomnu félagarnir væru örþreyttir, heldur rétt náðist að skutla töskum á hótelið og svo var brunað beint í leikhús. Írarnir buðu svo uppá veitingar og skemmtiatriði á eftir. Að því loknu buðu stórvinir okkar, Færeyingarnir Hilmar og Gunnvör Joensen og Noomi Reinert, okkur heim og við sungum um Ólaf liljurós fyrir Fransmenn.
Á mánudagsmorgun var okkur boðið í móttöku borgarstjóra í Jardin Exotique, ásamt þátttakendum frá Írlandi, Mexikó og Víetnam. Þar vorum við að reyna að vera pen og próper í 28 stiga hita og um það bil 80% raka. Víetnamarnir voru einkar vel til fara.