Leikfélag Hafnarfjarðar býður nú í tíunda skipti upp á leikhúsveislu undir merkjum Hins vikulega. Að þessu sinni er þemað Hrekkjavaka, enda fer sýningin fram á sjálfu Hrekkjavökukvöldinu, 31. október.
Hið vikulega er stuttverkadagskrá sem lýtur ákveðnum lögmálum sem hún dregur nafn sitt af. Höfundar í höfundasmiðju LH fá viku til þess að semja stuttverk sem síðan eru æfð af leikstjórum og leikurum félagsins á einni viku. Stuttverkakvöldin hafa vakið verðskuldaða athygli og verið vel sótt. Boðið er uppá kaffihúsastemningu og veitingar seldar í sal fyrir sýningu og í hléi.
Gera má ráð fyrir blóði drifinni dagskrá að þessu sinni og verður allt kapp lagt á að kalt vatn renni áhorfendum milli skinns og hörunds, í sönnum Hrekkjavökuanda.
Sýnt verður í Gaflaraleikhúsinu við Víkingastræti laugardagskvöldið 31. október og hefst óhugnaðurinn klukkan 20.00.
Að venju verður aðgangur ókeypis.