Aðalfundur Leikfélags Hafnarfjarðar, haldinn 21.8. 2017 í húsnæði Slökkviliðs höfuðborgasvæðisins að Tunguhálsi í Reykjavík, kl 20:00.
Mættir félagsmenn: Ólafur Þórðarson, Gísli Heimisson, Halldór Magnússon, Gunnar Björn, Ingveldur Þórðardóttir, Jóhanna Fríða Dalkvist, Oddfreyja H. Oddfreysdóttir, Aðalsteinn Jóhannsson, Stefán H. Jóhannesson, Una Dóra Þorbjörnsdóttir, Margrét Hannesdóttir, Steinunn Þorsteinsdóttir, Arndís Jóna Vigfúsdóttir, Ársæll Hjálmarsson, Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir, Kristín Helgadóttir.
Dagskrá:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla formanns
3. Skýrsla gjaldkera
4. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga
5. Kosning stjórnar og embættismanna sb. 6. Grein.
6. Lagabreytingar sbr. 13 gr.
7. Árgjald
8. Önnur mál
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
Gísli bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn. Stungið var upp á Jóhönnu Fríðu Dalkvist sem fundarstjóra og Ólafi Þórðarsyni sem fundarritara. Samþykkt með lófaklappi og Jóhanna tók við stjórn fundarins.
2. Skýrsla formanns
Gísli flutti skýrslu* formanns við góðar undirtektir.
3. Skýrsla gjaldkera
Arndís flutti skýrslu gjaldkera með dyggri aðstoð Gísla
4. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga
Reikningar voru samþykktir án athugasemda með öllum greiddum atkvæðum. Einn fundarmanna greiddi ekki atkvæði.
5. Kosning stjórnar og embættismanna sb. 6. grein.
5.1.Tveir meðlimir genga úr stjórn, Ólafur og Ingveldur. Gáfu þau bæði kost á sér til áframhaldandi setu. Önnur framboð komu ekki fram og voru þau kosinn með öllum greiddum atkvæðum.
5.2 Kosning um formann:
Stungið var upp á Gísla Heimissyni sem formanni. Önnur framboð komu ekki fram og var hann kjörinn með öllum greiddum atkvæðum.
5.3. Kosning varamanna í stjórn.
Halldór Magnússon, Gunnar Björn Guðmundsson, Aðalsteinn Jóhannsson og Ársæll Hjálmarsson buðu sig fram sem varamenn í stjórn.
Kosning fór á eftirfarandi máta.
Ársæll Hjálmarsson – 7 atkvæði
Gunnar Björn – 14 atkvæði
Halldór Magnússon – 13 atkvæði
Aðalsteinn Jóhannsson – 11 atkvæði
Gunnar Björn, Halldór og Aðalsteinn eru því kjörnir í varastjórn.
5.4 Margrét Sigríður Sævarsdóttir og Jóhanna Fríða Dalkvist bjóða sig fram sem Félagslegir endurskoðendur. Önnur framboð komu ekki fram og voru þær kjörnar með öllum greiddum atkvæðum. Oddfreyja Oddfreysdóttir bauð sig fram sem varaendurskoðanda. Önnur framboð komu ekki fram og var hún kjörin með öllu greiddum atkvæðum.
6. Lagabreytingar sbr. 13 gr.
Lagabreytingar voru engar.
7. Árgjald
Stungið var upp á óbreyttu félagsgjaldi og var það samþykkt samhljóða. Félagsgjaldið fyrir leikárið 2017 til 2018 er því ákveðið 1000 kr.
8. Önnur mál
8.1 Húsnæðismál
Ingveldur fór yfir stöðu húsnæðismála félagsins. LH varð húsnæðislaust þann 1. desember 2016 þegar það ákvað að endurnýja ekki samstarfssamning við Gaflaraleikhúsið þar sem því fannst um of þrengt að starfseminni þar. Framan af var afstaða Hafnarfjarðarbæjar sú að ekki væri rými til að styðja við starfsemi LH utan Gaflaraleikhúss, en eftir að geymsluhúsnæði LH var rifið og leikfélagið flutt í gám fékk bæjarstjóri heimild til þess að lofa félaginu stuðningi. LH hefur lagt formlega ósk fyrir bæjarráð um að fá inni í kapellu St. Jósefsspítala og hefur það erindi verið lagt inn í nefnd á vegum bæjarins um framtíð St. Jósefsspítala. LH mun ítreka ósk sína um að fá að koma fyrir nefndina vegna málsins. Bæjarstjóri og sviðsstjórar stjórnsýslu og framkvæmdasviðs hvöttu LH til þess að leita að leiguhúsnæði og hefur verið auglýst eftir því. Nokkrar umræður spunnust um húsnæðismálin og var mál manna að þessi mál þyrftu að komast í farveg hið fyrsta.
8.2 Elva Dögg kvaddi sér hljóðs og sagði sig opinberlega úr Leikfélagi Hafnarfjarðar. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að hún hafi verið partur af leikverkinu Ubba Kóngi hafi henni ekki verið sagt frá því að breyting hefði orðið á fyrirætlunum leikfélagsins um að hætta við að taka þátt í Leiklistahátíð í Mónakó. Henni væri misboðið og myndi þar af leiðandi segja sig úr félaginu. Yfirgaf hún fundinn að því loknu. Nokkur umræða var um ákvörðun Elvu Daggar og var bent á að hún hefði nokkuð til síns máls og að stjórn eða hópurinn hefði átt að vera búið að taka á málinu og láta hana vita. Aðalfundur beinir því til stjórnar að biðja Elvu Dögg afsökunar á því að hún hafi ekki verið látin vita.
8.3 Önnur mál voru engin. Gísli tók við stjórn fundarins, bauð nýja félaga velkomna og þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum samstarfið. Að lokum þakkaði hann fundarmönnum fyrir fundinn og sleit honum kl. 21:19
Fundargerð ritaði Ólafur Þórðarson.
Fylgiskjal:
*Skýrsla formanns Leikfélags Hafnarfjarðar 21. ágúst 2017
Þetta er búið að vera skrýtið ár.
Á þessu leikári höfum við afrekað ýmislegt. En samt er leikfélagið búið að vera í lægð. Ekki síst vegna þess að við höfum ekki lengur húsnæði fyrir starfsemi félagsins.
Seinasta júní þá fórum við með Ekkert að Óttast á fjalir Þjóðleikhússins, sem valin var athyglisverðasta leiksýning ársins. Tíu dögum seinna fór síðan LH með Ubba kóng til Austurríkis þar sem við sýndum við góðan orðstír.
Þegar heim var komið þá tók við samningsumleitanir við Gaflaraleikhúsið og Hafnarfjarðarbæ í kjölfar aðalfundar þar sem lagt var í hendur stjórnar að finna lausn á viðvarandi húsnæðisvanda leikfélagsins, skemmst er frá því að segja að samningavilji Gaflaraleikhússins og Hafnarfjarðarbæjar var af skornum skammti, og endaði það á því að LH ákvað að endurnýja ekki samning LH og Gaflaraleikhússins. Í öllum samskiptum okkar við Hafnarfjarðarbæ þá hefur bæjarstjóri lýst yfir vilja til að aðstoða okkur og núna í júní síðastliðinn þá var okkur lofað því að bærinn myndi styrkja okkur um húsaleigu ef við fyndum eitthvað húsnæði. Sú leit stendur nú yfir og auglýstum við í fjarðarfréttum síðastliðinn fimmtudag. Enn sem komið er höfum við ekki fengið nein viðbrögð. Einnig er áætlað að auglýsa í Fjarðarpóstinum, en þau hafa ekki svarað beiðni um birtingu auglýsingar.
Einnig hefur leikfélagið lagt inn beiðni um húsnæði í eigu bæjarins. Það húsnæði er Kapella St. Jósefsspítala, en niðurstaða í því fæst ekki fyrr en í fyrsta lagi 15. október, þar sem nefnd á vegum bæjarins skilar þá niðurstöðu um notkun á St. Jósefsspítala.
Auk Þjóðleikhússins og Austurríkis, þá sýndi LH stuttverkið Dimma Limm á NEATA stuttverkahátíð í Færeyjum í október. Seinna í október þá lauk LH veru sinni í Gaflaraleikhúsinu með stuttverkasýningunni Hið Endanlega, sem er í tólfta skiptið sem við erum með stuttverkasýningu undir yfirskriftinni Hið vikulega.
Eftir þá sýningu hefur starfsemi leikfélagsins legið niðri að mestu. Höfundasmiðjan kláraði verkið Ferðamaður deyr, sem áætlað var að setja upp á leikárinu, en vegna húsnæðiseklu hefur það ekki gerst. Við sjáum til hvað úr verður á næsta leikári. Dvergur var rifinn, þar sem við vorum með geymslu, og erum við núna með eigur félagsins í gámi.
Í júní síðastliðinn þá fór stór hluti LH í bandalagsskólann, 13 félagar voru þar við nám og skriftir, þar af 10 sem fengu styrk frá LH.
Leikfélagið var valið til að sýna Ubba kóng á stærstu áhugaleiklistarhátíð í heimi, IATA leiklistarhátíðin í Mónakó, og er hópurinn nú að æfa í húsnæði LK, og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir lán á aðstöðu þar. LH sýnir Ubba kóng þann 29. og 30. ágúst í Theatre Princesse Grace í Mónakó.
Að lokum vil ég bara segja þetta. Ekki örvænta þó leikfélagið sé í lægð, það styttir upp um síðir. Þegar við erum komin í húsnæði þar sem við getum gert það sem við viljum gera og erum ekki háð duttlungum annarra þá skín sólin að nýju.
f.h. stjórnar Leikfélags Hafnarfjarðar,
Gísli Björn Heimisson, formaður